Ótvírætt gildi héraðsblaða í sveitarstjórnarkosningum

Staðbundin fréttablöð eru sá fjölmiðill sem frambjóðendur hyggjast nota mest í komandi kosningabaráttu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við kjósendur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í lok mánaðarins.  Facebook er hins vegar að sá miðill sem næstur kemur og er greinilegt að frambjóðendur hafa verið fljótir að tileinka sér þennan nýja miðil sem ekki hefur áður komið við sögu í byggðakosningum á Íslandi.   

Þetta kemur fram í nýrri könnun fjölmiðlabrautar Háskólans á Akureyri, sem greint var frá á ráðstefnu um þjóðfélagsfræði á Bifröst um helgina. Birgir Guðmundsson dósent við HA og nemandi hans, Áslaugu Karen Jóhannsdóttur,  gerðu  könnun meðal frambjóðenda í  10 sveitarfélögum vítt um landið þar sem m.a. var spurt um fjölmiðlanotkun frambjóðenda og viðhorf  þeirra til fjölmiðla. „Annars vegar sýnir þetta ótvírætt hversu mikilvægt lýðræðishlutverk  héraðsfréttablaðanna á Íslandi er og að þau eru mikilvægur stólpi í samræðu og samheldni staðbundinna samfélaga. Hins vegar sýnir þetta okkur að stjórnmálamenn hinna hefðbundnu stjórnmála, sveitarstjórnarmenn í þessu tilfelli, hafa ekki síður en byltingarmenn búsáhaldanna tileinkað sér með hraði möguleikana sem skapast hafa með nýrri fjölmiðlatækni," segir Birgir Guðmundsson.

Rúm 76% frambjóðenda sögðust ætla að nýta sér  „mikið eða mjög mikið" möguleikann á að skrifa greinar í staðbundin fréttablöð og er þetta sú fjölmiðlagátt  sem frambjóðendur hyggjast nýta sér mest. Þegar frambjóðendur voru spurðir hvaða fjölmiðlaleiðir  þeir teldu að flokkurinn (kosningaskrifstofan þeirra) myndi nota var það  sama uppi á teningnum, en um  82% frambjóðenda taldi að flokkurinn myndi beita sér fyrir skrifum í staðbundin fréttablöð. Athygli vekur að rúm 40% frambjóðenda hugðust sjálfir taka þátt í að auglýsa í  staðbundnum fréttablöðum og rúm 66% þeirra taldi að flokkurinn myndi gera slíkt.
Þegar kemur að rafrænni fjölmiðlun skorar facebook sem fyrr segir mjög hátt.  Tæplega 68% frambjóðenda hyggjast nota facebook mikið eða mjög mikið í kosningabaráttunni og um 80% frambjóðenda segja að flokkurinn eða kosningaskrifstofan muni nota þann miðil mikið eða mjög mikið. Þá er tölvupóstur einnig mikið notaður til að koma skilaboðum á framfæri (fjölpóstur) en tæp 63% frambjóðenda hyggst nýta sér þann kost en um 84% frambjóðenda segja að flokkurinn muni nýta sér þessa leið.

Athygli vekur að samskiptavefurinn twitter virðist ekki hafa náð fótfestu meðal frambjóðenda enn og eins virðast frambjóðendur ekki búast við mjög stórum hlut auglýsinga í komandi baráttu.

Nýjast