Óskar Þór ráðinn framkvæmda- stjóri knattspyrnudeildar KA

Óskar Þór Halldórsson, fréttamaður, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA og mun hann hefja störf eftir áramót. Óskar Þór kemur til með að starfa fyrir bæði stjórn knattspyrnudeildar og yngriflokkaráð í knattspyrnu og mun því koma að málum knattspyrnunnar í KA frá 8. flokki og upp í meistaraflokk karla. Þá mun hann hafa yfirumsjón með N1-móti KA í knattspyrnu.  

Óskar Þór er ekki með öllu ókunnugur knattspyrnunni í KA því hann var formaður yngriflokkaráðs KA í knattspyrnu um þriggja ára skeið. Þá hefur hann komið að skipulagningu Greifamóta KA í knattspyrnu frá upphafi og lagt sín lóð á vogarskálarnar við framkvæmd N1-mótsins undanfarin ár. Þá skal þess getið að Óskar Þór var verkefnastjóri Landsmóts UMFÍ á Akureyri sumarið 2009, sem var stærsta og fjölmennasta landsmót frá upphafi og tókst afburða vel.

"Þetta er ögrandi og spennandi verkefni, sem ég hlakka til að takast á við. Framundan er áframhaldandi uppbygging í knattspyrnunni hjá félaginu og sömuleiðis varðandi aðstöðu, bæði á Akureyrarvelli og félagssvæði KA við Dalsbraut. Þess verður vonandi ekki langt að bíða að ráðist verði í gerð gervigrasvallar á KA-svæðinu, sem að mínu mati myndi gjörbreyta allri aðstöðu félagsins í knattspyrnu til hins betra.

Þetta verður vissulega yfirgripsmikið starf - að koma að málum í öllum yngri flokkum og alveg upp í meistaraflokk. Ég hygg að þetta hafi ekki verið gert áður í KA, en ég tel rétt að horfa á knattspyrnuna í félaginu sem eina heild. Vöxturinn hefur verið mikill í yngriflokkastarfinu á undanförnum árum og ég hef ekki trú á öðru en að hann haldi áfram.  Og það verður verðugt verkefni fyrir mig að setja mig inn í mál varðandi meistaraflokk og 2. flokk, að ekki sé talað um N1-mótið, sem er einfaldlega stærsta knattspyrnumót á Íslandi ár hvert.  Þar treysti ég á og veit að ég fæ ófá góð ráð frá Gassa, sem hefur unnið frábært starf fyrir KA mörg undanfarin ár," segir Óskar Þór.

"Við í stjórn knattspyrnudeildar eru mjög ánægð ráðningu Óskars Þórs.  Undanfarin ár hefur hann unnið heilmikið fyrir knattspyrnuna í KA og þekkir því vel til hjá okkur. Framundan eru mörg verkefni, stór sem smá og við erum mjög ánægð með að fá hann til liðs við okkur, við væntum mikils af hans störfum í framtíðinni fyrir knattspyrnudeild KA," segir Bjarni Áskelsson, formaður knattspyrnudeildar KA.

Nýjast