Bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að vinna áfram að málinu. Eins og fram hefur komið í Vikudegi, hefur Norðurorka hf. einnig óskað eftir viðræðum við bæjaryfirvöld á Akureyri vegna rannsókna og vinnslu "hauggas" á Glerárdal. Franz Árnason forstjóri Norðurorku lagði til við stjórn fyrirtækisins að Norðurorka sækti um einkaheimild til rannsókna á hauggasi til metangasvinnslu til Akureyrarbæjar og láti, að leyfinu fengnu, framkvæma nauðsynlegar boranir, afkastamælingar og úrvinnslu þeirra.
"Þetta tel ég nauðsynlegt til að geta svarað því hvort nægilegt gas sé til staðar fyrir koltrefjaverksmiðju en athugun á uppsetningu hennar er enn í gangi á fremur jákvæðum nótum að sögn framkvæmdastjóra Strokks ehf. Vinnsla gassins og nýting hefur í för með sér umhverfislegan ávinning," sagði Franz m.a. í samtali við Vikudag nýlega.