12. nóvember, 2010 - 13:12
Fréttir
Fallorka ehf gerði í febrúar á þessu ári frumathugun á kostum þess að virkja í efri hluta Glerár, eða svo kallaða
Glerárvirkjun 2. Þessi frumathugun var kynnt bæjaryfirvöldum og sýndi þá ekki nægjanlegar fjárhagslegar forsendur fyrir framkvæmdinni.
Ólafur Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram bókun um þetta mál á fundi bæjarráðs í
gær, þar sem hann óskaði eftir nýjum útreikningi á verkefninu og að Fallorka kynni bæjarráði aðra vænlega kosti sem
fyrirtækið hefur verið að skoða til virkja.
Ólafur bendir ennfremur á í bókun sinni að nú hafi komið fram upplýsingar, m.a. frá Landsvirkjun, um að reikna megi með
stighækkandi raforkuverði á næstu árum og eins að bæði hafi krónan styrkst og vextir lækkað að undanförnu.
Þá óskaði Ólafur einnig eftir að bókað yrði að hann óski eftir að fá úttekt á stöðu hönnunar- og
skipulagsverkefna hjá bænum.