Örlög eða áfangastaður?

Huld Hafliðadóttir.
Huld Hafliðadóttir.

Fyrir rúmum 20 árum var ég nýlent á flugvellinum í Frankfurt, tilbúin að eyða ári í suður Þýskalandi sem skiptinemi. Hópur sjálfboðaliða tók á móti mér og öðrum skiptinemum og sá um að koma öllum áfram í réttar lestir.
Einhvern veginn náði ég að vera á síðustu stundu (kemur reyndar ekki á óvart) og fór það svo að mér var hálfpartinn hent upp í lest með þeim orðum að einhver myndi finna mig þar.

Ég sem aldrei hafði stigið upp í lest áður, með tvær þungar töskur settist í fyrsta klefann sem ég sá. Grunlaus með öllu um að það væri fyrsta farrými. Ég var enn móð og másandi eftir allt fátið, en sat og beið og vonaði að einhver kæmi eins og mér var lofað.
Ekki leið á löngu áður en lestarvörður kom í dyrnar, kona á miðjum aldri með heldur ákveðinn svip. Og ekki var rómurinn mildari.

Ticket please? Ég sagði henni aumkunarlega að ég væri ekki með miða, en það væri fólk um borð með miðann minn. Hún tók það ekki gilt. What is your destination? Destination, hugsaði ég alveg yfir mig stressuð, hvað þýðir aftur destination? Bíddu, eru það ekki örlög? Er hún að spyrja mig um örlög mín? Uuu.. I don't know svaraði ég eftir bestu getu. You don't know your destination? Sagði konan vægast sagt hneyksluð og hóf að vísa mér á dyr. Ég er hrædd um að þú verðir að yfirgefa lestina fröken. Aðframkomin af stressi reyndi ég enn að segja henni að fólk um borð væri með miðann minn. En henni varð ekki haggað. Þegar ég var búin að drösla töskunum fram á ganginn, tilbúin að mæta örlögum mínum, já eða áfangastað, kom þar að par á hlaupum, mótt og másandi og sagði lestarverðinum á þýsku að þetta væri líklega farþegi á þeirra vegum. Og uppfrá því hef ég reynt eftir bestu getu að hafa áfangastaðina mína á hreinu. Og enskuna.


Athugasemdir

Nýjast