Aðstæður voru skoðaðar í eyjunni og um kvöldið var haldinn almennur borgarafundur þar sem fjallað var um niðurgreiðslur, orkusparnað og mögulegar lausnir á orkumálum Grímseyinga. Öll íbúðarhús í Grímsey eru hituð með olíu og niðurgreiðir ríkissjóður kostnað íbúa niður í sama verð og íbúar í dreifbýli greiða fyrir rafhitun. Framleiðsla rafmagns til almennrar notkunar í Grímsey er mjög dýr og kostar hver kílóvattstund 45 kr. frá dísilstöðinni en íbúar í eyjunni greiða sem svarar dreifbýlisverði fyrir orkuna sem lætur nærri að vera 13 krónur. Mismuninn greiðir ríkisvaldið.
Fulltrúar Orkustofnunar komu jafnframt færandi hendi til Grímseyjar en þeir höfðu meðferðis Osram sparperur sem fyrsta skref í almennum orkusparnaði íbúa í Grímsey.