Athugasemdir stjórnar Eyþings eru annars þessar:
Viðhald og þjónusta vegakerfisins.
Mikill niðurskurður á fé til viðhalds og þjónustu á vegakerfinu veldur áhyggjum. Hætta er á að mjög skyndilega geti orðið hrun í vegakerfinu, t.d. á bundnu slitlagi, verði viðhald vanrækt. Slíkt getur leitt til gífurlegs kostnaðar síðar. Rétt er einnig að benda á að minni þjónusta á vegum er ávísun á aukna slysahættu.
Nær engar nýframkvæmdir.
Samkvæmt tillögunni verður öllum vegaframkvæmdum sem standa yfir í landshlutanum lokið og því ber að fagna. Engar nýframkvæmdir, utan byrjun á snjóflóðavörnum í Ólafsfjarðarmúla, eru hins vegar áætlaðar í landshlutanum á tímabilinu.Ýmsum framkvæmdum sem voru á vegáætlun hefur þar með verið slegið á frest, s.s. í Svarfaðardal, í Hörgárdal, á Dagverðareyrarvegi að Gásum, Hólavegi í Eyjafjarðarsveit, í Bárðardal, Staðarbraut í Aðaldal og Grjótagjárvegi.
Dettifossvegur.
Eins og fram kemur í upphafi þingsályktunartillögunnar þá er nú samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar unnið að gerð sóknaráætlunar fyrir Ísland. Hluti hennar er gerð sóknaráætlana fyrir einstaka landshluta. Eitt af forgangsverkefnum sóknaráætlunar fyrir Norðausturland er svo kallaður demantshringur (Mývatnssveit, Dettifoss, Ásbyrgi, Húsavík). Veigamikill hluti þessarar leiðar, og um leið veigamikill liður í uppbyggingu ferðaþjónustu á Norðausturlandi, er nýr vegur með Jökulsá á Fjöllum. Nú er unnið að gerð vegar frá Hringvegi að Dettifossi. Stjórn Eyþings leggur áherslu á að gert verði ráð fyrir áframhaldandi framkvæmdum við Dettifossveg frá Dettifossi í Ásbyrgi í samræmi við áherslu sóknaráætlunar.
Nýjar brýr.
Það vekur athygli stjórnar að framkvæmdir við nýjar brýr yfir Skjálfandafljót er ekki að finna á áætluninni en ástand þeirra er með öllu óviðunandi. Þá vekur stjórnin athygli á því að þungaflutningar milli Norður- og Austurlands eru miklum annmörkum háðir vegna þess að brú á Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði ber takmarkaðan þunga. Lokist vegir vegna náttúruhamfara, t.d á Suðausturlandi, kann þetta að leiða til mikilla vandkvæða. Ástæða er til að haft sé í huga að brúarsmíði er mannaflsfrek framkvæmd.
Vaðlaheiðargöng.
Gert er ráð fyrir að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga með sérstakri fjármögnun samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Stjórnin vill í því sambandi vekja athygli á því að ítrekað hefur komið fram að með öllu óraunhæft er að reikna með að veggjöld standi að fullu undir framkvæmdinni. Þá vill stjórnin enn og aftur vekja athygli á þeirri miklu undirbúningsvinnu sem heimamenn lögðu í á vettvangi félagsins Greiðrar leiðar og sem undirstrikar mikilvægi verkefnis í augum sveitarstjórnarmanna og íbúa svæðisins.
Hjólreiða- og göngustígar.
Stjórn Eyþings telur fráleitt að einskorða framkvæmdir við hjólreiða- og göngustíga við höfuðborgarsvæðið og bendir í því sambandi sérstaklega á leiðir út frá Akureyri, auk þess sem brýn þörf er á að ráðast í slíkar framkvæmdir umhverfis Mývatn vegna öryggis ferðamanna.
Akureyrarflugvöllur.
Gert er ráð fyrir að ráðist verði í stækkun flugstöðvar og flughlaðs Akureyrarflugvallar með sérstakri fjármögnun samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Stjórn Eyþings leggur mikla áherslu á þessa framkvæmd vegna aukinnar umferðar og öryggissjónarmiða, auk þess sem framkvæmdin er mikilvægur liður í uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu.