Óli sýnir víða um heim

Það er skammt stórra högga á milli hjá listmálaranum Óla G. Jóhannssyni. Hann hefur verið með sýningar víða um heim og hafa verk hans vakið mikla athygli. Nýlega lauk sýningu á verkum Óla í Seoul í Suður Kóreu og þá átti hann verk á umfangsmikilli afmælissýningu Opera Gallery í New York. Sýningin í New York var haldin í tilefni því að Opera Gallery hefur starfað í borginni í 10 ár en henni lauk nú um mánaðamótin.  

Þar sýndi Óli eitt stórt verk, 3x4 metrar og önnur minni en þar eru einnig til sýnis verk eftir frægustu listamenn sögurnnar. Það voru utanaðkomandi listfræðingar sem völdu verk á sýninguna og segir Óli að það sé feiknalega mikill sigur fyrir sig að hafa verið valinn þar inn.

Hann er kominn með sýningarstjóra á Ítalíu og Óli verður með nokkur málverk á sýningu í Feneyjum í október og þá verður hann með stóra sýningu í Montini listasafninu á Norður Ítalíu á vordögum. Þá hefur Óli þegið með þökkum boð um að vera með einkasýningu í Reykjanesbæ í janúar á næsta ári. Sýningarstjóri á þeirri sýningu verður Aðalsteinn Ingólfsson. Óli segist hafa gert nokkuð af því að fjalla um Ísland og íslenska myndlist í tenglsum við sýningar sínar erlendis. Í Seoul var Óli til að mynda með fyrirlestur, þar sem kennslustund í listaskóla borgarinnar var færð inn á sýningu hans. Einnig fékk sýning hans mikla umfjöllun í fjölmiðlum og í listasamfélaginu í Seoul.

Nýjast