Við það verður ögn færra í bekkjum en bekkjardeildir jafnmargar og í fyrra. Nemendur í skólanum næsta vetur verða um 750. Óvenju margir kennarar eru í náms- eða fæðingarorlofi í vetur að sögn Jóns Más Héðinssonar skólameistara, en vel gekk að manna allar stöður sem við það losnuðu. "Við fengum mjög gott fólk í allar stöður sem auglýstar voru," segir hann.
MA stefnir að því að efla raunvísindakennslu við skólann og verður áhersla lögð á það í vetur ásamt öðru. Jón Már segir að skólinn hafi fengið að gjöf tölvustýrðan stjörnukíki og nú hefur honum verið komið fyrir á þaki Möðruvalla, í þar til gerðu húsi. Stefnt er að því að sögn skólameistara að stofna stjörnuskoðunarfélag og ætlunin að allur almenningur, bæjarbúar og nærsveitamenn geti notið þess að skoða stjörnur himins í vetur. Því sem fyrir augu ber verður varpað á tjald í Möðruvallakjallara. "Ég held að það sé ekki til svona fullkominn kíkir á landsbyggðinni, en það er samskonar gripur á Seltjarnarnesi, en ég veit ekki hversu mikinn aðgang almenningur hefur að honum," segir Jón Már og taldi fullvíst að áhugasamir hlakki til stjörnubjartra komandi vetrarkvölda.