Í framhaldi af útgáfu OECD skýrslu um leikskólamál barst bæjaryfirvöldum á Akureyri nýverið erindi undirritað af þremur leikskólastjórum bæjarins fyrir hönd allra leikskólastjórnenda á Akureyri. Í erindinu er lýst áhyggjum yfir því að of lítið rými sé fyrir hvert barn í leikskólum. Það geti haft m.a. áhrif á geðtengsl sem getur leitt til kvíða og einbeitingarskort hjá ungum börnum.
Björg Sigurvinsdóttir, leikskólastjóri á Lundarseli, er ein þeirra þriggja leikskólastjóra sem funduðu með fræðslunefnd Akureyrar. „Við sjáum fram á að það yrði mun farsælla ef við gætum sinnt hverju barni ennþá betur. Til þess að svo verði þarf að auka rými barna. Við gerðum tillögu sem við bárum undir fræðslunefnd, en hún byggir á því það verði færri börn á kennara en eru alla jafna í dag og að það verði að meðaltali 12-16 börn á yngri deildunum og 18-24 börn á eldri deildunum.
Það fer svolítið eftir samsetningu deildanna hver fjöldinn yrði. En með því að hafa færri börn á hvern kennara er hægt að sinna þörfum barnannna mun betur og það er ljóst að börn þurfa meira pláss til að athafna sig,“ segir Björg.
Börn eiga lengri skóladaga en áður
Björg bendir á að samkvæmt skýrslu OECD sem kom út á síðasta ári séu íslensk börn mun lengur í leikskóla yfir daginn en tíðkast í öðrum löndum. „Áður fyrr voru börn oft fimm til sex tíma í leikskóla. Árið 1998 voru t.d. aðeins um 43% nemenda átta tíma á dag, en árið 2016 var þessi hópur orðin rúmlega 87%. Börn í dag eiga mun lengri skóladaga og rannsóknir og upplifanir starfsfólks sýna að slæm áhrif langra daga geti haft á t.d. geðtengsl. Lítið rými fyrir hvert barn er ein af ástæðunum sem starfsfólk hefur áhyggjur af.“
Björg gegnir trúnaðarstarfi hjá Félagi stjórnenda í leikskóla og var ályktun send frá félaginu um þetta efni til allra sveitarfélaga í haust. „Þar tókum við m.a. fram að það sé mikil álag fyrir ungt barn að vera í stórum hópi í litlu rými í langan tíma yfir daginn.“
Stór árgangur að fara úr leikskólum
Leikskólamál á Akureyri hafa reglulega verið í umræðunni undanfarna mánuði þar sem skortur er á leikskólaplássum og komast færri börn að í leikskóla en vilja. Sem dæmi fékk Akureyrarbær vilyrði frá sveitarfélögum í kring eftir áramótin um að nota pláss á leikskólum vegna plássleysis í
bænum.
Telur Björg gerlegt að takmarka inngöngu barna frekar í ljósi þessa aðstæðna? „Akureyrarbær hefur tekið vel í erindi okkar leikskólastjóra eftir að hafa skoðað þær rannsóknir sem við bendum á. Það eru mjög fá pláss sem losna í leikskólum um hver áramót þar sem fyllt er í alla leikskóla um haustin. Þess vegna er ekki hægt að taka við nýjum börnum um áramótin nema annað barn hætti. Við vitum að fólk er að
horfa á innritun barna núna í haust, en staðan er sú að það er mjög fjölmennur árgangur að fara úr leikskólunum í haust og næstu árgangar sem eru að koma inn í leikskólana eru ekki eins fjölmennir. Þannig að já, þetta er gerlegt og núna er möguleiki til að byrja að huga að þessu að einhverju marki.
Það stendur til að skoða hvort hægt sé að fækka eitthvað börnum. En það þarf að gera þetta skynsamlega. Fræðslunefnd telur að það sé kannski ekki hægt takmarka barnafjöldann eins mikið og við óskum eftir strax, það þarf að gerast í áföngum.“
Spurð hvort það hafi verið mistök, í ljósi þessara upplýsinga, að loka tveimur leikskólum á Akureyri síðustu tvö árin, segir Björg erfitt að svara því. „Vegna þess að á þeim tíma höfðum við allt aðrar tölur um barnafjölda og það gerðist fyrst í fyrra að miklu fleiri börn komu í bæinn en fluttu í burtu og það raskaði miklu.“