Óboðnir gestir í garði Sundlaugar Glerárskóla

Hópur ungmenna tjaldaði við Sundlaug Glerárskóla í nótt en þar er ekki skipulagt tjaldsvæði. Þrír úr hópnum létu sér ekki nægja að tjalda heldur vippuðu sér upp á þak sundlaugarinnar og niður í sundlaugargarðinn.  

Í sundlaugargarðinum eru heitir pottar en hinir óboðnu gestir fóru ekki í pottana en eyðilögðu þess í stað 8 sólbekki úr plasti. Lögreglan kom á staðinn í morgun og bað ungmennin að taka upp tjöld sín og færa sig á skipulagt tjaldsvæði sem þau og gerðu möglunarlaust. Sundlaug Glerárskóla verður lokið um helgina og vatni hleypt úr  heitu pottunum. Sundlaugin er í næsta nágrenni við félagssvæði Íþróttafélagsins Þórs en þar er heldur ekki skipulagt tjaldsvæði að þessu sinni. Hins vegar reka Þórsarar tjaldsvæði rétt við höfuðstöðvar Norðurorku.

Samkvæmt því sem fram kemur á vef lögreglunnar á Akureyri féllu ýmis verkefni inná borð hennar nú í upphafi verslunarmannahelgarinar.  Um kvöldmatarleytið í gær var ekið á 6 ára dreng við tjaldstæðið að Hömrum. Drengurinn var fluttur á Sjúkrahús Akureyrar til aðhlynningar en ekki er talið að um alvarleg meiðsl sé að ræða. Mikið eftirlit var með umferð til og frá bænum og hafði lögreglan afskipti af 9 ökumönnum sem óku of geyst og sá sem hraðast fór af þeim ók á 142 km. hraða um Öxnadal.  Þess má geta að hann hafði, skömmu áður en hraði hans var mældur, ekið framúr ómerktri lögreglubifreið á mikilli ferð sem síðan mældi hraða hans og hafði í kjölfarið afskipti af honum. 

Þrír aðilar gistu fangageymslur í nótt sökum ölvunar en þeir höfðu farið fullgeyst neyslu áfengis.  Að öðru leiti gekk kvöldið og nóttin ágætlega fyrir sig og ástand almennt gott.

Nýjast