Nýtt og notalegt gallerý í Eyjafjarðarsveit

Nýtt gallerý hefur tekið til starfa í Eyjafjarðarsveit, nefnist það Gallerýið í sveitinni og er í fallegu litlu húsi fyrir neðan bæinn Teig. Þær Þorgerður Kristjana Jónsdóttir og Svanborg Svanbergsdóttir eru eigendur gallerýsins. Þorgerður segir að með opnun Gallerýsins sé gamall draumur að rætast.  

„Ég hafði hugsað mér þetta lengi, fyrir nokkrum árum var ég með gallerý heima í bílskúrnum í Teigi . Árið 2002 hættum við hjónin búskap og elsti sonurinn átti þetta hús á jörðinni sem hann nýtti lítið og ég fékk það til afnota. Gallerýið opnaði svo snemma í nóvember sl."

Helsta viðfangsefni þeirra Þorgerðar og Svanborgar þessa dagana er auk jólanna, ýmis vinna úr gleri. „Ég sker glerið en Gerða [Þorgerður] skreytir," útskýrir Svanborg. Þorgerður bætir við: „En að sjálfsögðu er margt annað á boðstólnum en hlutir frá okkur. Fjölmargir eiga vörur hér sem við seljum í þeirra umboði. Hér eru til að mynda margar mjög fallegar skreytingar eftir Svanhvíti Jósefsdóttur sem margir kannast við úr blómabúðum á Akureyri og fallegar ullarvörur sem Lóa Barðadóttir, hárgreiðslukona á Akureyri á mikið til heiðurinn af."

Þær stöllur vildu að lokum koma því á framfæri að allir væru velkomnir að skoða það sem þær hafi í boði, þiggja um leið kaffibolla og eiga notalega stund.

Nýjast