Ný starfsstöð Fjölskylduhjálpar á Akureyri

Fjölskylduhjálp Íslands opnar nýja starfsstöð félagsins að Freyjunesi 4 á Akureyri um miðjan nóvember næstkomandi. „Það hafa ekki verið matarúthlutanir hérna á Akureyrir nema þá fyrir jólin. Þetta verður vikulega eins og er fyrir sunnan og byggt upp á nákvæmlega sama hátt," segir Gerður Jónsdóttir, verkefnastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands á Akureyri.  

Að sögn Gerðar verður nýja starfsstöðin einungis með matarúthlutanir til að byrja með, en svo gæti vel verið að fataúthlutanir verði teknar upp í kjölfarið. Fjölskylduhjálp Íslands auglýsir eftir sjálfboðaliðum í nýja starfsstöð  félagsins og geta þeir sem hafa áhuga haft samband við Gerði í síma 899-8392 og 462-3669. Aðspurð hvað hún þurfi marga sjálfboðaliða til að halda rekstrinum gangandi segir Gerður: „Ég geri mér enga grein fyrir því, en því fleiri því betra. Þá getur fólk skipt þessu á milli sín. Þetta á að vera þannig að þetta verði ekki kvöð á fólki. Fólk á að geta komið og gert gagn á stuttum tíma."  Þetta kemur fram á mbl.is.

Nýjast