Ný og glæsileg Íþróttamiðstöð Giljaskóla formlega vígð í dag

Ný og glæsileg Íþróttamiðstöð Giljaskóla var formlega vígð í dag að viðstöddu fjölmenni. Böðvar Kristjánsson fulltrúi fyrirtækisins SS Byggis, sem lauk framkvæmdum við húsið, afhenti Oddi Helga Halldórssyni formanni stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar lykilinn að húsinu því til staðfestingar. Oddur Helgi afhenti svo Nóa Björnssyni formanni íþróttaráðs lykilinn til varðveiðslu.  

Oddur Helgi sagði í ávarpi sínu í dag, að leiðin væri löng frá því að hann og fleiri stukku yfir hestinn, hjá Kára Árna í íþróttahúsinu við Laugargötu. Sennilega hafi fimleikar aldrei fengið eins góða aðstöðu og nú, frá því að Laugargatan var byggð 1941. "Já fyrir nærri 70 árum. Það hús var bylting og önnur bylting er hér,"  sagði Oddur. Framkvæmdakostnaður með búnaði er áætlaður kr. 970 milljónir króna, eða um 356 þúsund kr./m². Helstu áherslur sem lagðar voru til grundvallar við hönnunvoru: Íþróttamiðstöð, góð aðstaða til iðkunar fimleika, góð aðstaða til leikfimikennslu, heitur pottur fyrir sérdeild Giljaskóla, stórbætt aðstaða til samkomuhalds og gott flæði milli íþróttamiðstöðvar og skóla. Fyrsta skóflastunga að byggingunni var tekin í júní 2008 og upphaflega átti að taka húsið í notkun í júlí 2009. Verktakinn sem hóf framkvæmdir tilkynnti í fyrrasumar að hann treysti sér ekki til að ljúka byggingunni og sagði sig frá verkinu. Í framhaldinu voru framkvæmdir boðnar út að nýju og í kjölfarið samið við SS Byggi en tilboð fyrirtækisins var metið hagstæðast. Verkið fól í sér fullnaðarfrágang á byggingunni, innan sem utan, og frágang á lóð. SS Byggir afhenti svo Íþróttamiðstöð Giljaskóla til notkunar í ágúst sl.

Nýjast