Guðný Sverrisdóttir hefur verið ráðin sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, en starfinu ætti hún að vera kunnug, hefur gengt því undanfarin 23 ár.„Mér líst bara vel á þetta, sveitarfélagið stendur vel fjárhagslega og atvinnuástand er afar gott,“ segir Guðný. „Nú hefur ákveðinn kafli í sögu sveitarfélagins verið skráður og það er alltaf gaman að fá tækifæri til að vera með í að skrifa næsta kafla. Ég hlakka til að vinna áfram að framgangi sveitarfélagsins.“
Guðný segir að ýmis verkefni séu framundan, en í nýrri þriggja ára áætlun sé meðal annars gert ráð fyrir að hafnar verði endurbætur á sundlaug staðarins, götur verði malbikaðar og farið verði í framkvæmdir á vegum vatnsveitu. „Svo hef ég mikinn áhuga fyrir því að við hefjum þróunarvinnu, setjumst í rólegheitum yfir það hvernig við viljum sjá sveitarfélagið þróast til framtíðar,“ segir Guðný. Þá nefnir hún einnig að yfir standi vinna við gerð aðalskipulags sem ná mun til ársins 2020 og í því verði gert ráð fyrir að þéttbýlið í Grenivík stækki og að sveitarfélagið geti orðið að um 500 manna byggðalagi. Nú eru íbúar 336 talsins og hefur þeim fækkað á umliðnum árum. „Það er númer eitt að okkur hætti að fækka og við verðum að leita allra ráða til að svo verði sem og einnig að stefna að því að íbúum fjölgi hér á nýjan leik,“ segir Guðný.