18. maí, 2008 - 10:35
Fréttir
Ingvar Björnsson ráðunautur hjá Búgarði segir að bændur reyni nú að nýta sér þann áburð sem til fellur heima
á búunum sem best þeir geta, þ.e. búfjáráburðinn og spara þannig kostnað við kaup á áburði.
Verð á áburði hefur hækkað umtalsvert milli ára og vegur þungt í rekstri búanna. "Það reyna margir að draga úr
áburðarnotkun svo sem hægt er," segir Ingvar. Til er í dæminu að einstaka bóndi hafi alveg hætt að nota tilbúin keyptan
áburð, en það sé fátítt. "Ég finn fyrir auknum áhuga bænda á að hefja lífrænan búskap og nýta
þá mykjuna sem áburð og eða svonefndar belgjurtir, m.a. rauð- eða hvítsmára," segir hann. Þessar jurtir eiga það sammerkt
að mynda kolefni úr loftinu og nýtast þannig að unnt er að draga úr áburðargjöf.
Ingvar segir að varasamt sé að draga úr áburðargjöf, sprettan verði minni, en vissulega sé nú lag til að nýta
búfjáráburðinn í meira mæli en áður. Þá nefnir hann að sumir fari út í að endurrækta tún
sín. Þegar aðföng hækki í verði eins og nú reyni bændur að finna leiðir til að nýta það sem fyrir er og draga
úr kostnaði við reksturinn.