Í framhaldi af því tók stjórn Norðurorku málið til umræðu á fundi sínum í síðasta mánuði. Á fundin mættu sérfræðingar frá verkfræðistofunni Mannvit og fóru yfir málið. Franz Árnason forstjóri Norðurorku segir að sérfræðingarnir telji að þarna sé verulegt magn af vinnanlegu hauggasi sem inniheldur umtalsvert magn metangass. "Metangas má nota á ýmsan veg en einkum er horft á tiltölulega stóran notanda auk þess sem afhenda mætti gas á bifreiðar. Vinnsla gassins einvörðungu sem eldsneyti á bifreiðar er enn sem komið er ekki fýsilegur kostur," segir Franz.
Jafnframt kom fram í máli sérfræðinganna að frekari rannsóknir þyrfti til að sannreyna útreikninga á gasmagninu í sorphaugunum á Glerárdal. Franz lagði til við stjórnina að Norðurorka sækti um einkaheimild til rannsókna á hauggasi til metangasvinnslu til Akureyrarbæjar og láti, að leyfinu fengnu, framkvæma nauðsynlegar boranir, afkastamælingar og úrvinnslu þeirra.
"Þetta tel ég nauðsynlegt til að geta svarað því hvort nægilegt gas sé til staðar fyrir koltrefjaverksmiðju en athugun á uppsetningu hennar er enn í gangi á fremur jákvæðum nótum að sögn framkvæmdastjóra Strokks ehf. Vinnsla gassins og nýting hefur í för með sér umhverfislegan ávinning," segir Franz.
Stjórn Norðurorku samþykkti tillöguna og fól forstjóra að óska eftir viðræðum við bæjaryfirvöld um málið. Í framhaldi af þessari samþykkt var bæjaryfirvöldum ritað bréf og því fylgt eftir á fundi með bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar. Í bréfinu er farið fram á viðræður við bæjaryfirvöld hið fyrsta um málið. Vonast er til að þær viðræður hefjist á allra næstu dögum.