Viðhorf nemenda 10. bekkjar virðist almennt jákvæðara til skólans síns en nemenda í 8. og 9. bekk. Þetta er á meðal þess sem
fram kemur í könnun sem gerð var í grunnskólum Akureyrarbæjar sl. vor. Trausti Þorsteinsson lektor við HA gerði grein fyrir niðurstöðum
könnunarinnar á síðasta fundi skólanefndar. Þar kemur jafnframt fram að mestur áhugi meðal nemenda er á íþróttum,
verkgreinum og ensku en minnstur áhugi á dönsku og íslensku. Mikill meirihluti nemenda telur sig hafa mikinn metnað til að standa sig vel í námi og
að gerðar séu miklar kröfur til þeirra í skólanum. Ef marka má afstöðu nemenda til krafna sem til þeirra eru gerðar virðast
þær aukast í elstu bekkjum skólanna.
Niðurstöður benda til að nemendur fái lítt að vera með í ráðum við að skipuleggja eigið nám. Langflestir nemendur telja
að þeir fái góða kennslu í sínum skóla og að kennarar hafi metnað fyrir þeirra hönd. Tæplega helmingur nemenda segir hins
vegar starfið í skólanum fjölbreytt og yfir 40% segir að lítil áhersla sé lögð á samvinnu nemenda í kennslustundum. Mikill
meirihluti nemenda segist sjaldan vera í hópastarfi í kennslustundum.
Ef marka má niðurstöður virðast kennarar vera mjög sparir á hrós við nemendur sína svo og nemendur á hvern annan. Foreldrar virðast
umbuna börnum sínum með hrósi.