Nemendum fjölgar í Grímsey og Hrísey

Skólastarf í Grímsey og Hrísey hófst á dögunum og fjölgar grunnskólanemendum á báðum stöðum. Tólf nemendur hófu nám í Grímseyjarskóla og er það fjölgun um einn frá því í fyrra. Alls eru 15 nemendur í skólanum, því þrír krakkar eru í leikskólanum sem er samtvinnaður grunnskólanum. Kennt er upp í 8. bekk og eru tveir nemendur í 1. og 2. bekk og þrír í 4. bekk, en einn nemandi í hverjum fimm hinna bekkjanna. Hulda Signý Gylfadóttir skólastýra, segir veturinn lofa góðu.

 

„Þetta skólaár leggst bara vel í okkur og það er gaman að krökkunum skuli fjölga þó það sé ekki nema um einn,” segir Hulda. Hún segir misjafnt hvert krakkarnir fara þegar áttunda bekk líkur, en yfirleitt sé það til ættingja upp á landi. „Foreldrunum þykir nú best að vita af krökkunum hjá skyldfólki,” segir Hulda.

 

Þórunn Arnórsdóttir skólastýra í Hrísey, segir skólastarfið fara vel af stað á þeim bænum en þar er kennt frá 1.-10. bekk. „Hér eru allir jákvæðir og spenntir að takast á við veturinn. Fyrstu vikuna vorum við með skólaleika, þar sem við skiptum krökkunum í hópa og höfðum allskonar keppnir og þess háttar,” segir hún. Líkt og Grímseyjarskóli samanstendur Hríseyjarskóli af grunnskóladeild og leikskóladeild. Í grunnskólanum eru 22 nemendur en 14 í leikskólanum. Grunnskólanemendum fjölgar um þrjá frá því í fyrra. Sjötti bekkurinn er fjölmennastur með sex nemendur en einn nemandi er í 10. bekk.

Nýjast