Nemendum fækkar ef framhaldskólarnir verða færðir til sveitarfélaga

Jón Már Héðinsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri varaði við því í ræðu sinni við skólaslit MA að færa framhaldsskólana til sveitarfélaga, eins og gert hefði verið með tónlistarskólana.  

Hann nefndi sem dæmi að utanbæjarnemandi í MA sem veldi tónlistarbraut þyrfti að borga allt að því eina milljón króna á ári í skólagjöld í Tónlistarskólanum. Ef framhaldsskólarnir færu sömu leið gætu framhaldsskólanemendum á Akureyri fækkað um 400-500 og nemendur þvingaðir til að fara í skóla í heimasveit. Menntaskólinn á Akureyri væri andvígur átthagafjötrum, hann hefði alltaf verið skóli allra landsmanna.

Skólameistari sagði jafnframt að hann hefði hvatt til samstarfs og samráðs við fjölgun framhaldsskóla, m.a. hér við Eyjafjörð. Takmarkið ætti ekki að vera það eitt að byggja skóla: "Ég vara við því að rugla saman menntun og steinsteypu, rúmmetri af steinsteypu er ekki menntun," sagði Jón Már.

Nýjast