Nám á meistarastigi í haf- og strandsvæðastjórnum á Ísafirði í samstarfi við HA

Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, skrifaði í gær undir samstarfssamning við menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Háskólasetur Vestfjarða um framkvæmd náms á meistarastigi í haf- og strandsvæðastjórnum á Ísafirði.  

Um er að ræða nýja námsleið hér á landi auk þess að með tilkomu námsins verður í fyrsta skipti boðið upp á staðbundið háskólanám á Vestfjörðum. Námið er sett á fót í samstarfi við Háskólann á Akureyri sem mun sjá um að bera faglega ábyrgð á gæðum kennslu, námsefnis og námsmats og sjá til þess að starfsfólk uppfylli akademískar kröfur. Þannig ber HA ábyrgð á inntöku nemenda, náminu í heild og veitingu prófgráðu við námslok.

Í ræðu sem rektor hélt af þessu tilefni, sagði hann meðal annars: „Það er afar vel til fundið að bjóða upp á nám í haf- og strandsvæðastjórnun á þessum tímum mikilla breytinga í heimsmálunum.  Uppbygging fræðigreinar í haf- og strandsvæðastjórnun hlýtur að taka mið af forsendum Íslands sem samfélags á norðurslóðum.  Málefni norðurskautsins sem áður voru jaðarmálefni einstakra ríkja og sérhæfðra vísindamanna færast nú í átt að miðju stjórnmála heimsins.  Athygli hlýtur að vekja að Sarah Palin, ríkisstjóri Alaska, er í framboði sem varaforsetaefni í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og getur þar með haft lykilhlutverki að gegna í stefnumótun og ákvarðanatöku voldugasta ríkis heimsins".

Ennfremur sagði Þorsteinn: „Fyrir okkur í Háskólanum á Akureyri hefur verið afar ánægjulegt að vinna að því með Háskólasetri Vestfjarða að koma á fót námsleið á meistarastigi í haf- og strandsvæðastjórnun þar sem allt námið er kennt á Ísafirði.  Nám í haf- og strandsvæðastjórnun hefur mikil tengsl við nám á auðlindasviði við Háskólann á Akureyri, einkum sjávarútvegsfræði og er hluti af starfsemi viðskipta- og raunvísindadeildar háskólans."

Nýjast