Næst mesti fæðingafjöldi frá upphafi

Mynd/epe
Mynd/epe
  • Mikil aukning í starfsemi SAk
  • Fæðingum fjölgaði um 26 prósent
  • Sjúklingum fjölgaði um 22 prósent en meðallegutími styttist

 

Á ársfundi Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), sem fram fór í dag kom fram að komum sjúklinga á dagdeildir fjölgaði um tæp 24 prósent milli ára og voru 7.268. Framkvæmdar voru 473 gerviliðaaðgerðir árið 2021 samanborið við 331 árið áður og nemur aukningin 43 prósentum. Farin voru 30 prósent fleiri sjúkraflug en árið áður og voru flugin 807.

Almennum rannsóknum fjölgaði um tæp 20 prósent sem og myndgreiningum sem fjölgaði um 23 prósent. Skurðaðgerðum fjölgaði um 11 prósent og var 3.181 aðgerð framkvæmd á árinu, að gerviliðaðgerðum meðtöldum. Legudagar voru 28.384 og fjölgaði  um 11 prósent. Dvölum á legudeild fjölgaði um 22 prósent og voru 6.330 á árinu.

Í heildina voru sjúklingar sjúkrahússins 13.598 talsins og fjölgaði um 22 prósent. Meðallegutími var 4,5 dagar sem er stytting um 0,4 dag frá fyrra ári.

Á árinu fæddu 488 konur 491 barn, sem er fjölgun um tæp 26 prósent á milli ára og næst mesti fæðingafjöldi frá upphafi. Viðtölum lækna á göngudeildum fjölgaði um tæp 16 prósent og voru 13.666 á árinu. Þá fjölgaði komum í aðra göngudeildarstarfsemi um 8 prósent og voru 12.577.


Athugasemdir

Nýjast