24. febrúar, 2008 - 11:35
Fréttir
Íbúar í Eyjafjarðarsveit hafa náð því marki að verða fleiri en eitt þúsund, í fyrsta sinn við formlega
mannfjöldaskráningu sem miðar við 1. desember ár hvert. Bjarni Kristjánsson sveitarstjóri segir að þetta sé í fyrsta sinn sem
íbúafjöldinn fari yfir eitt þúsund við formlega skráningu, en vissulega hafi þeir af og til náð þeirri tölu
áður. „Það er stígandi í þessu," segir hann. Hann væntir þess að íbúatalan haldi áfram að
hækka og nefnir að nægt framboð sé á lóðum um þessar mundir í sveitarfélaginu. Þannig eru lausar 15 lóðir
á nýjum skipulagsreit í Reykárhverfi, þegar hafa borist 9 umsóknir um lóðirnar, en umsóknarfestur rann út í vikunni.
„Það var lítið byggt í sveitarfélaginu í fyrra, sem hélst í hendur við lítið framboð lóða. Nú
eru nógar lóðir tilbúnar, en vissulega gæti ástand efnahagsmála sett strik í reikninginn, það er ómögulegt að segja hver
þróunin verður," segir Bjarni.