Myndlistarfélagið sýnir verk félagsmanna í Hofi

Myndlistarfélagið á Akureyri verður með kynningu í menningarhúsinu Hofi, sem opnuð verður föstudaginn 27. ágúst nk. kl. 17.00. Á kynningunni verða verk eftir rúmlega 60 listamenn úr Myndlistarfélaginum sem sannarlega endurspegla þann margbreytileika sem myndlistin felur í sér. Einnig sýnir Guðný Kristmannsdóttir málverk en hún er einnig félagi í Myndlistarfélaginu og fyrrverandi bæjarlistamaður.  

Myndlistarfélagið var stofnað í janúar árið 2008 og er eitt aðildarfélaga Sambands íslenskra myndlistarmanna. Í því eru nú rúmlega 80 myndlistarmenn, flestir búsettir á Akureyri eða á Norðurlandi en félagið er opið öllum myndlistarmönnum. Megin tilgangur félagsins er að vera málsvari myndlistarmanna, gæta hagsmuna þeirra og bæta kjör og starfsgrundvöll þeirra. Einnig að efla umræðu um myndlist,  auka þekkingu og fræðslu um myndlist og stuðla að  samvinnu myndlistarmanna.

Í Myndlistarfélaginu er fjölbreyttur hópur ólíkra myndlistarmanna sem endurspeglar gróskuna í myndlist á landinu. Myndlistarfélagið rekur Gallerí BOX og Sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu á Akureyri og kappkostar að bjóða uppá framsæknar og fjölbreyttar sýningar erlendra og íslenskra listamanna ásamt því að sýna verk félagsmanna.

Sýningarnefndina skipa: Brynhildur Kristinsdóttir, Laufey M. Pálsdóttir og Dagrún Matthíasdóttir.

Nýjast