Munnharpa Davíðs komin í leitirnar

Alltaf er gaman þegar fágætir munir rata aftur til síns heima eftir að hafa verið lengi á flakki og jafnvel verið taldir glataðir. Það sannaðist í gær þegar Jón B. Guðlaugsson kom færandi hendi í Davíðshús á Akureyri, heimili skáldsins Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Jón hafði í fórum sínum slitna munnhörpu sem Davíð átti forðum daga en hana hafði Árni Kristjánsson (1906-2003), píanóleikari og fyrrverandi tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins, gefið Jóni seint á síðustu öld. Árni og Davíð voru kærir vinir og líkast til hefur Davíð einhverju sinni gleymt hörpunni heima hjá Árna. Í bókinni “Endurminningar samferðarmanna” skrifaði Árni kafla um Davíð vin sinn og nefnir þar meðal annars að hann hafi orðið vitni að því að skáldið kunni listavel að spila á munnhörpu.
Opið er í Davíðshúsi að Bjarkarstíg 6 á Akureyri frá kl. 13-17 alla virka daga í sumar.

Nýjast