Mun meiri meðalþungi dilka í ár en í fyrra

Það stefnir í mun meiri meðalþunga dilka úr haustslátrun Norðlenska á Húsavík en í fyrra. Þegar búið er að slátra um 60 þúsund fjár, er meðalvigtin um 850 gr. meiri en meðalvigtin var í fyrra, að sögn Sigmundar Hreiðarssonar vinnslustjóra á Húsavík.  

Sigmundur segir að það sem vekji athygli sé að þessi aukning felist að meginhluta í meiri kjötgæðum þó svo að fita sé líka aðeins meiri. "Hún er auðvitað líka hluti af gæðum og nauðsynleg með upp að ákveðnum hluta, svo það má gera ráð fyrir að þetta þýði um 50 tonnum meira af kjöti í ár, eingöngu vegna þessa." Sigmundur segir að slátrun hafi gengið mjög vel, verkun verið til fyrirmyndar og gallar allt niður í 0,43 % á dag, sem séu kannski 8 gallar á dag. "Þetta sýnir að sjálfsögðu að hér kann fólk til verka og markmið okkar hefur alltaf verið að byggja á góðri verkun, frekar en að hugsa of mikið um afköst og frá þeirri stefnu hefur ekki verið hnikað. Við vinnum úr öllu okkar kjöti hér og því hefur þetta mjög mikla þýðingu í áframhaldandi vinnslu ásamt því að nauðsynlegt er að bera ákveðna virðingu fyrir því frábæra hráefni sem lambakjötið er," segir Sigmundur.

Við slátrun og vinnslu hjá Norðlenska á Húsavík, starfa þetta haustið um 130 manns og segir Sigmundur að til að svona vertíð gangi með þeim hætti sem raun ber vitni, þurfi gott og dugmikið fólk. "Það er óhætt að segja að fólk hefur staðið sig mjög vel og þá ekki síst það fólk sem starfar hér allt árið í vinnslunni."

Sigmundur segir að mikið af fólki komi erlendis frá til að starfa við slátrun og vinnslu. "Það er þó ljóst að þær hremmingar sem hér hafa orðið í þjóðfélaginu undanfarið teygja sig verulega hingað inn, því fólki hefur gengið mjög illa að millifæra launin sín heim og er auðvitað mjög uggandi hvað þetta varðar."

Síðasti dagur slátrunar á Húsavík verður föstudaginn 24. október n.k og áætlaður sláturfjöldi þetta haustið er um 80 þúsund. Slátursala hefur gengið mjög vel og um verulega aukningu að ræða þar á milli ára, "og frábært að fólk skuli nýta sér þennan þjóðlega, ódýra og holla mat."

Nýjast