Mótmæla staðsetningu hjúkrunarheimilis

Í hádeginu í dag voru þeim  Geir Kristni Aðalsteinssyni forseta bæjarstjórnar og Oddi Helga Halldórssyni formanni bæjarráðs afhentar 120 undirskriftir starfsmanna á Öldrunarheimilum Akureyrar.  Það var Helga Guðrún Erlingsdóttir hjúkrunarforstjóri sem afhenti undirskriftirnar, sem voru til að mótmæla staðsetningu á nýju hjúkrunarheimili sem á að rísa í Naustahverfi, beint fyrir ofan gamla Naustabæinn. Staðsetningin gengur þvert á þá hugmyndafræði sem unnið er eftir á Öldrunarheimilum Akureyrar.  Bæði þeir Geir Kristinn og Oddur Helgi sögðust myndu  skoða þessar athugasemdir vel þó breytingar á þessu stigi væru augljóslega nokkuð erfiðar. Hins vegar svöruðu þeir spurningu Vikudags um hugsanlegar tafir á framkvæmdum ef staðsetningu yrði breytt þannig, að verkið myndi ekki endilega tefjast, en það gæti hins vegar haft í för með sér einhvern kostnaðarauka að breyta staðsetningunni.

Hugmyndafræðin sem starfsfólk Öldrunarheimilanna vísar til, kallast “Eden-hugmyndafræði” og leggur hún mikla áherslu á að skapa heimili og umhverfi þar sem einstaklingurinn getur lifað fjölbreyttu og innihaldsríku lífi þrátt fyrir þverrandi heilsu og minnkandi færni. Því er, eins og segir í yfirskrift undirskriftalistans, áhersla á að “hjúkrunarheimili séu staðsett í grónum íbúðahverfum í nálægð við skóla, leikskóla og fjölbreytt mannlíf. Með slíkri staðsetningu er auðvelt fyrir íbúa hjúkrunarheimila að fara út í umhverfið og/eða fylgjast með daglegu lífi út um gluggana. Einnig er auðvelt fyrir stóra og smáa gesti að koma í heimsóknir og gleðja íbúanna með nærveru sinni.”

Ekki er beinlínis lögð til tiltekin ný staðsetning fyrir hjúkrunarheimilið, en ljóst er að til greina kemur að finna því stað við Vestursíðu, enda mun sú staðsetning falla betur að Wden-hugmyndafræðinni en að setja heimilið niður í útjaðri bæjarins.

Nýjast