Mjög góð aðsókn að tjald- svæðunum á Akureyri í sumar

Mjög góð aðsókn var að tjaldsvæðunum á Akureyri í sumar. Enn eitt árið fjölgar gestum að Hömrum og er óhætt að fullyrða að það er eitt allra vinsælasta tjaldsvæði landsins. „Sumarið hjá okkur gekk mjög vel og sérstaklega ánægjulegt hversu góða dóma við fáum t.d. í gestabókunum okkar," segir Tryggvi Marinósson framkvæmdastjóri Hamra, útilífs- og umhverfismiðstöðvar skáta.  

Gistinóttum fjölgaði um 2.700 milli áranna 2009 og 2010 og urðu alls 41.700 á liðnu sumri. Tryggvi segir það nálægt því að vera metaðsókn.  Hann segir að gistinóttum erlendra ferðamanna hafi fækkað umtalsvert eða um 3.100 í allt milli ára. Fækkun sé áberandi mest í maí og júní og megi eflaust að einhverju leyti rekja til eldgossins í Eyjafjallajökli  „Íslendingum fjölgaði hins vegar töluvert á milli ára hjá okkur, eða um 6.200 og var fjölgunin öll á Hömrum,  en á tjaldstæðinu við Þórunnarstræti varð fækkun milli ára og nemur hún 2.300 gistinóttum," segir Tryggvi.

Formleg opnun með fullri þjónustu  á tjaldsvæðinu að Hömrum er frá 15.maí til 15 október en í raun er svæðið opið allt árið og alltaf eru einhverjir sem kom og gista ásvæðinu yfir veturinn. Fyrir þá sem áhuga hafa á að nýta sér tjaldsvæðið utan venjulegs opnunartíma  er best að hafa samband  fyrir komu. Sennilega er þetta eina tjaldsvæðið sem er opið allt árið. Tjaldstæðinu við Þórunnarstræti var lokað um miðjan september, það var opnað 4. júní síðastliðinn og voru gistinætur þar samtals um 16.800, sem er í slöku meðallagi að sögn Tryggva.

Árið 2007 voru skráðar alls um 33 þúsund gistinætur á Hömrum, 42.500 árið á eftir sem er gríðargóð aðsókn, í fyrra voru gistinætur um 39.500 og sem fyrr segir um 41.700 á liðnu sumri. Heldur fleiri Íslendingar gistu á Hömrum síðastliðið sumar en í fyrrasumar, um 32.300 gistinætur Íslendinga eru skráðar í sumar en voru 26.500 í fyrra.  Útlendingar voru heldur færri, 9.400 á liðnu sumri á móti 12.500 sumarið 2009.  „Það er mikil fjölgun hjá okkur í hópi íslenskra ferðamanna og greinilegt að þeir hafa verið á faraldsfæti í sumar og mikið komið við á Akureyri.  Þetta eru fínar tölur og alveg greinilegt að vinsældir Hamra aukast jafnt og þétt, en Þórunnarstrætið dalar aftur á móti," segir Tryggvi

Skátafélagið Klakkur hefur rekið tjaldsvæði, útilífs-og umhverfismiðstöð að Hömrum undanfarin 10 sumur.

Nýjast