Minningarhátíð um Matthías á Sigurhæðum og í Ketilhúsinu

Fimmtudaginn 11. nóvember nk. eru 175 ár liðin frá því Matthías Jochumsson fæddist að Skógum í Þorskafirði. Að því tilefni verður opið hús á Sigurhæðum á Akureyri frá kl. 15-17 þann dag og hátíðardagskrá í minningu skáldsins í Ketilhúsinu um kvöldið. Á Sigurhæðum verður afmælisstemmning líkt og í barnaafmæli, enda týndi Matthías aldrei barninu í sjálfum sér.

Þar syngur Barnakór Akureyrarkirkju og yngstu fiðluleikararnir við Tónlistarskólann á Akureyri taka lagið. Einnig verður fróðleikur um Matthías og veitingar. Í Ketilhúsinu, þar sem dagskráin hefst kl. 20.30 flytja fjölmargir listamenn verk tengd Matthíasi. Nemendur við Hlíðarskóla hafa lagt ómetanlegan skerf til hátíðarinnar. Krakkarnir hafa kynnt sér verk Matthíasar að undanförnu og gert myndverk af skáldinu, sem verða afhjúpuð. Auk þess syngur Karlakór Akureyrar-Geysir m.a. lagið Akureyri eftir Björgvin Guðmundsson við ljóð Matthíasar.  Þráinn Karlsson, leikari, fer með ljóð  og Karl Hallgrímsson frumflytur lag, sem hann hefur gert við ljóð skáldsins á Sigurhæðum. Kristján Árnason, bókmenntafræðingur, sem er langafabarn Matthíasar, segir frá þjóðskáldinu og þá fyrst og fremst þýðingum hans. Þá mun Strengjasveit Tónlistarskólans flytja nokkur lög úr Skugga-Sveini undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Einsöngvarar með sveitinni verða Guðbjörn Ólsen Jónsson, Helena Guðlaug Bjarnadóttir, Jónína Björt Gunnarsdóttir og Michael Jón Clarke. Kynnir og sögumaður verður Gísli Sigurgeirsson.
Matthías var af mörgum talinn einn mesti andans maður sem Ísland hefur alið. Hann var afkastamikill, lét flest frá sér strax og var ekki mikið fyrir lagfæringar eða endurbætur á skáldverkum sínum. Þess vegna liggur mikið eftir hann, en misjafnt að gæðum. Það besta heldur minningu hans á lofti um ókomna tíð. Matthías var vel meðalmaður að vexti, en hann var "stór" og hlý persóna, sem eftir var tekið.  "Það var eins og að mæta fjalli, að mæta honum á götu", sagði Davíð Stefánsson frá Fagraskógi um skáldbróður sinn.  

Nýjast