Milljóna tjón á Glerártorgi eftir að heitavatnsrör fór í sundur

Milljóna króna tjón varð í verslun Pier á Glerártorgi, þegar heitavatnsrör upp undir lofti í bakrými verslunarinnar fór í sundur og heitt vatn flæddi um húsnæðið. Vatn flæddi einnig um húsnæði Rúmfatalagersins og Megastore en tjónið í þeim verslunum er talið mun minna.  Katrín Eyjólfsdóttir framkvæmdastjóri Pier segir að skemmdirnar þar séu miklar. "Það lá 10 cm heitt vatn yfir öllu, hér myndaðist um 60 gráðu hiti og því hafa einnig orðið miklar hitaskemmdir," sagði Katrín nú í morgun.  

Unnið hefur verið að því setja upp húsbúnaðar- og gjafavöruverslun Pier á Glerártorgi síðustu vikur og á að opna hana þann 4. nóvember nk. Katrín segir að þrátt fyrir þetta mikla tjón standi ekki annað til en að opna á tilsettum tíma, með góðra manna hjálp. Milliveggir og gólf í rými Pier skemmdust, sem og öll húsgögn og aðrar vörur sem búið var að stilla upp í versluninni. "Tjónið hleypur því á milljónum króna hjá okkur," sagði Katrín.

Aðalbjörn Pálsson húsvörður á Glerártorgi segir að hjá Rúmfatalagernum séu vörur á brettum og þær því sloppið að mestu þótt vatn hafi flætt þar um gólf. Hjá Megastore flæddi einnig um gólf og einhverjar skemmdir urðu á vörum. Hins vegar hafi aðkoman í Pier ekki verið glæsileg. "Rörið fór í sundur í rými Pier og hér var bara gufa þegar fyrstu menn komu að, auk þess sem heitt vatn sprautaðist yfir húsnæðið."

Vatnsnemi í Rúmfatalegernum fór í gang á fimmta tímanum morgun og eftir tilkynningu frá Securitas komu að húsverðir, lögregla, slökkvilið, starfsfólk frá ræstifyrirtæki, iðnaðarmenn og fleiri. Aðalbjörn sagði að allir þeir sem komu að hreinsun í morgun hafi staðið sig alveg feykilega vel og nefndi sérstaklega slökkvilið og starfsfólk hjá Þrif og ræstivörum.

Nýjast