Mikilvægt að skólinn haldi sínu sjálfstæði og sinni sérstöðu

Háskólinn á Akureyri þarf að skera niður um 8% fyrir næsta ár. Þessi niðurskurður samsvarar 105 milljónum króna eða 15 stöðugildum. Á háskólafundi HA í vikunni var farið yfir hvernig mæta ætti þessum niðurskurði. Stefán B. Sigurðsson, rektor skólans, segir að verið sé að skoða ýmsar leiðir en reynt verði að forðast uppsagnir starfsmanna til hins ýtrasta.  

„Auðvitað verða einhverjar uppsagnir, en þær yrðu þá frekar í því formi að minnka yfirvinnu og stundakennslu og þá lendir það sennilega á þeim sem eru í hlutastöðum. Ef það verða einhverjar uppsagnir fastra starfsmanna að þá reynum við að hafa það með eins miklum fyrirvara og mögulegt er," segir Stefán. Þá verður námslínum á auðlindasviði að öllum líkindum fækkað úr þremur í tvær, en þessar þrjár línur eru sjávarútvegsfræði, umhverfis- og orkufræði og líftæknifræði. Einnig er verið að skoða samstarf milli aðra skóla til hagræðingar, bæði við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum og segir Stefán að ákveðnar hugmyndir séu komnar af stað milli HA og HÍ um mögulegt samstarf á sviði kennslu í viðskiptafræði og lögfræði.

„Mér finndist mjög líklegt að fjarnám í þessum greinum yrði alfarið sinnt frá HA og einnig munum við sjá um okkar staðarnám. Kennsla í þessum greinum myndi ekki minnka í HA heldur getum við nýtt okkur fyrirlestra fyrir sunnan, sem varpað yrði hingað norður og öfugt. Það eru svona hugmyndir sem er verið að vinna með og þetta er samstarf sem yrði báðum skólum til hagsbóta. Hins vegar er rauði þráðurinn hjá mér í þessu öllu saman að Háskólinn á Akureyri haldi sínu sjálfstæði og sinni sérstöðu," segir Stefán. 

Nýjast