Engin stór sundmót voru haldin í Sundlaug Akureyrar í sumar, en slík mót voru í fyrra, þannig að ljóst er að mun fleiri gestir hafa verið á ferðinni á liðnu sumri en þá. „Það eru haldin ýmis íþróttamót á Akureyri að sumarlagi, m.a. N1 mótið og þá er alltaf mjög líflegt hér og margt um manninn," segir Elín. Að jafnaði er fleira fólk á ferðinni í lauginni þegar vel viðrar „og sumaraukinn sem við fengum í byrjun september var dásamlegur og mikið af fólki hér hjá okkur," segir hún.
Börn yngri en 15 ára fá ókeypis í sund, um er að ræða tilraun sem hófst í byrjun árs og lýkur um næstu áramót. „Þetta hefur gefist vel, börn og ungmenni hafa nýtt sér þetta í miklum mæli, en auðvitað fylgja þessu bæði kostir og gallar," segir Elín. Vitanlega hefur gjaldfrelsi barna og ungmenna í för með sér að „álagið eykst en tekjurnar minnka," eins og Elín orðar það. Á móti kemur „að það er yndislegt að hafa sem flesta í lauginni og gaman að sjá að unga fólkið hefur áhuga fyrir að koma hingað, það er alltaf gaman að hafa sem flesta í lauginni," segir Elín.