Mikill erill um helgina en lítið um alvarleg atvik

Mikill fjöldi fólks var hér á Akureyri um verslunarmannahelgina á hátíðinni, "Ein með öllu og allt undir", og hafði lögreglan í bænum í nógu að snúast. Ólafur Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir menn þar á bænum nokkuð sátta með helgina þrátt fyrir mikinn eril. “Það gekk allt ljómandi vel í stórum dráttum og ekkert stórvægilegt kom upp á, en það voru margir sem keyrðu of hratt og voru mikil afskipti af fólki,” segir Ólafur.

Hann segir ennfremur að enginn slys hafi átt sér stað og engar alvarlegar líkamsárásir hafa verið kærðar til lögreglu, en það sé ennþá verið að fara yfir helgina. “Það var mikið að gera hjá okkur og mikið af fólki í bænum en við vorum mjög sáttir með hvernig til tókst og það voru lítil “skríðslæti”, ég held að þetta hafi bara verið týpísk fjölskylduhátíð og hafi heppnast eins og upp var lagt með,” segir Ólafur.

Þung umferð var úr bænum í gær og voru milli 5- 600 bílar stöðvaðir í gærmorgun til þess að athuga hvort menn voru undir áhrifum áfengis. Talið er tveir þeirra hafi verið ölvaðir.

Nýjast