Seint verður sagt að í þessum leik hafi verið leikinn fallegasti handbolti sem sögur fara af en aftur á móti má segja að sjaldan hafi sést jafn mikil ákveðni og baráttuvilji á gólfi Íþróttahallarinnar eins og leikmenn Akureyrar sýndu í dag.
Varnarleikur liðsins var frábær og væri ósanngjarnt að taka einn mann út þar því allir stóðu svo sannarlega fyrir sínu. Þó verður að minnast á frábæran leik Hafþórs Einarssonar í markinu sem varði hvorki fleiri né færri en 23 skot.
Sóknarlega var nokkuð bras á liðinu en segja má að menn hafi stigið upp þegar á þurfti að halda. Leikurinn var í járnum lengst af en Akureyri þó alltaf skrefinu á undan. Um miðbik seinni hálfleiks náði Akureyri þriggja marka forystu 18-15 en Stjörnunni tókst að minnka þann mun í eitt mark þegar ekki nema rúmar tvær mínútur lifðu leiks.
Oft hefur verið vandamál hjá Akureyri að klára leikina með sigri í þessari stöðu en svo var ekki að þessu sinni. Nánast hver maður á vellinum var tilbúinn en sér í lagi Jónatan Magnússon sem skoraði tvö af alls sex mörkum sínum á síðustu mínútunni og tryggði Akureyri sigurinn.
Mörk Akureyrar dreifðust raunar vel á liðið í kvöld þar sem stórskyttan Árni Sigtryggsson hafði óvenju hægt um sig, en alls skoruðu átta manns mörkin 22 fyrir liðið.
,,Þetta var hörkuleikur og við vorum alveg staðráðnir í að gera okkar besta og sýna okkar fólki að við erum góðir í handbolta. Ég viðurkenni alveg að þetta var ekki fallegasti handbolti sem hefur verið spilaður en baráttan var til staðar og við höfðum alveg rosalega gaman af þessu og ég held að það hafi skilað sér til áhorfenda. Ég vil líka taka það fram að ég stóð við stóru orðin sem ég lét falla í Vikudegi í dag," sagði Andri Snær Stefánsson glaður að leik loknum.
Hann var sammála því að varnarleikur liðsins hafi verið lykillin af sigrinum: ,,Við erum eitt besta varnarlið landsins þegar við eigum góðan leik og Haffi (Hafþór Einarsson) er enn að komast í sitt besta form en var frábær í kvöld. Svo loksins tókum við á skarið í kvöld í sóknarleiknum þegar á þurfti að halda eins og við höfðum talað um að gera. Það má segja að næstum allt hafi gengið upp í kvöld," sagði Andri Snær áður en hann fór að fagna með félögum sínum.
Sigurinn í kvöld hjá Akureyri var liðinu afar mikilvægur enda sá fyrsti í deildinni þennan veturinn. Liðið lyfti sér með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er í KA-heimilinum gegn liði Reykjanesbæjar í bikarkeppninni á laugardag.
Mörk: Akureyrar: Jónatan Magnússon 6/1, Andri Snær Stefánsson 5/1, Árni Sigtryggsson 3, Oddur Grétarsson 3, Heiðar Þór Aðalsteinsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 1, Elfar Halldórsson 1, Gústaf Línberg Kristjánsson 1.