Mikið hefur verið um ferðamenn á Akureyri í sumar og eru kaupmenn alsælir með mikla og góða verslun í bænum. Mikill fjöldi fólks er í bænum nú um helgina og verslun er lífleg.
Ragnar Sverrisson formaður Kaupmannafélags Akureyrar kveðst heyra það á sínu fólki að almenn ánægja ríki með verslun sumarsins, mikið hafi verið um ferðafólk í bænum og útlit fyrir að svo verði eitthvað áfram, “þannig að það eru allir mjög glaðir og jákvæðir,” segir hann. Sjálfur hefur hann komið sínum varningi fyrir utan
dyra í blíðviðrinu undanfarna daga og segir það skipta sköpum, “það skapar góða stemmningu og fjörið verður enn meira,” segir hann. Óðinn Svan Geirsson í Bónus segir að met hafi verið slegið í versluninni hvað sölu varðar nú í júlímánuði. “Það er endalaus straumur allan daginn, mikill uppgangur en það sem háir okkur era ð búðin er of lítil, hún er löngu sprungin. Við hefðum örugglega selt mun meira ef við gætum tekið á móti fleira fólki,” segir hann. Bónus áformar að opna aðra verslun í Naustahverfi og væntir Óðinn Svan þess að hún verði risin fljótlega á næsta ári.
Hugrún Guðmundsdóttir hjá Greifanum segir að mikið hafi verið að gera í sumar og þá einkum nú í júlí, nánast upp á hvern dag sé helgartraffík á veitingastaðnum og bið eftir borðum. “Það hefur verið rosalega mikið að gera, mikill og stöðugur straumur alla daga og mér sýnist sem þannig verði það áfram næstu daga eða vikur,” segir hún.