Mikil fækkun í umferðarlaga- brotum á Akureyri á milli ára

Umferðarlagabrotum í júní á þessu ári fækkaði um meira en helming frá því á sama tíma í fyrra í umdæmi lögreglunnar á Akureyri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu embættis ríkislögreglustjóra. Í júní 2009 voru framin 332 umferðarlagabrot en 161 í ár.  

Gunnar J. Jóhannsson, lögreglufulltrúi hjá lögeglunni á Akureyri, segir enga eina skýringu á þessari fækkun, en segir að svo virðist sem ökulag landans sé að breytast. „Ölvunarakstur og akstur undir vímuefnum fækkar ekki en það sem er að gerast er að umferðarlagabrotum í sambandi við hraðakstur og bílbeltanotkun hafa snarminnkað. Það skýrist bæði útaf háum sektum og svo tökum við eftir því að fólk keyrir öðruvísi í dag. Fólk virðist átta sig á því að með því að aka hægar að þá sparast peningur og fólk virðist horfa í það," segir Gunnar.

Hann segir tölurnar einkar ánægjulegar, sérstaklega í ljósi þess að lögreglan hefur þurft að draga úr eftirliti á götum úti. „Brotunum fækkar þrátt fyrir það og slysunum fjölgar ekki." Þá kemur einnig fram í skýrslunni að hegningarlagabrotum fækkar talsvert milli ára. Í fyrra voru brotin 91 talsins en 65 í ár og hafa farið fækkandi síðustu ár en hegningarlagabrotin voru 101 árið 2008. Fíkniefnabrotum fækkar eilítið milli ára en 15 fíkniefnabrot voru framin í júnímánuði í fyrra en 8 í ár.

Gunnar segist merkja mikla fækkun í innbrotum og þjófnaði á Akureyri og í nágrenni. „Skýringin er hluta til sú að okkur hefur gengið vel að upplýsa um mörg af þessum innbrotum og þjófnuðum. Svo hafa líka mörg af þessum brotum verið framin af utanbæjarmönnum, sem er bara staðreynd. Það er þekkt að afbrotarmenn af höfuðborgarsvæðinu fara oft út á land í þeim tilgangi að brjótast inn og ræna og því hefur fækkað mikið í okkar umdæmi," segir Gunnar. 

Nýjast