Sýningin "Hreingjörningur í lit" unnin og flutt af Önnu Richardsdóttur dansara og gjörningalistakonu, Brynhildi Kristinsdóttur og Jónu Hlíf Halldórsdóttur, myndlistakonum, Kristjáni Edelstein og Wolfgang Sahr tónlistamönnum, ásamt Þorbjörgu Halldórsdóttur leikmyndahönnuði, verður flutt í bílageymslu við Norðurorku á Rangárvöllum, í kvöld kl. 20.30. Jóhannes Dagsson opnar myndlistasýninguna „Stöðumyndir" í DaLí Gallery á Akureyri í dag kl. 17.00. Efnivið sinn sækir Jóhannes í tvö af fyrirferðarmeiri menningarfyrirbærum liðinnar aldar, modernisma og fótbolta. Sýningin stendur til 27. apríl og er opin föstudaga og laugardaga kl. 14-17 og eftir samkomulagi. Mikill áhugi er á tónleikum Þursaflokksins á Græna hattinum um helgina og er uppselt á þá tvenna tónleika sem áætlaðir voru. Ákveðið hefur verið að bæta við aukatónleikum á miðnætti í kvöld. Hlynur Hallsson myndlistarmaður verður með leiðsögn um sýninguna "Bæ bæ Ísland" í Listasafninu á Akureyri, sunnudaginn 13. apríl nk. kl. 14.00. Hlynur er einn þátttakenda í sýningunni. Leiðsögnin ásamt umræðum mun standa yfir í um 40 mínútur og er öllum opin.
Þá eru í boði leiksýningar hjá Leikfélagi Akureyrar, Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit og Leikdeild Eflingar á Breiðumýri í Reykjadal.