Metaðsókn að tjaldstæðinu við Hrafnagil í sumar

Aldrei hafa jafn margir gestir sótt tjaldstæðið að Hrafnagili heim og á liðnu sumri, en þar voru skráðar um 12 þúsund gistinætur sumarið 2010.  Metaðsókn var í júlí og ágúst en rólegra aftur á móti í júnímánuði.  Um 80% gestanna eru Íslendingar.  

Guðrún Sigurjónsdóttir forstöðumaður íþróttamannvirkja og tjaldstæðis á Hrafnagili segir að menn séu mjög ánægðir með sumarið, enda hafi stöðugur straumur gesta legið að tjaldsvæðinu og allir verið ánægðir.  Tjaldsvæðinu var formlega lokað um nýliðin mánaðamót en þá höfðu um 12 þúsund gistinætur verið skráðar, fleiri en nokkru sinni..  „Júlí og ágúst voru mjög góðir, aðsókn þessa mánuði var mikil og fjöldi gesta jafnan hér á svæðinu.  Júní var aftur á móti heldur rólegri, ég veit ekki hvort heimsmeistaramótið í fótbolta hafði einhver áhrif á ferðagleði landsmanna, en það gæti verið," segir Guðrún.

Hún segir svæðið njóta vaxandi vinsælda, enda sé aðstaða góð, sundlaug innan seilingar og allt sem þarf.  Þá var tjaldsvæðið á Hrafnagili hið eina á svæðinu sem var þátttakandi að svonefndu Útilegukorti og margir landsmenn nýttu sér það á liðnu sumri.  „Við finnum líka að okkar gestir eru ángæðir og það er mikið um að sama fólkið komið aftur og aftur," segir Guðrún. 

Rými er fyrir um 400 manns á tjaldsvæðinu og segir Guðrún að til standi að bæta við fyrir næsta sumar.  „Við reynum að bæta aðstöðuna og þjónustuna eftir því sem fjárhagurinn leyfir.  Eitt af því sem við horfum til er að stækka svæðið eitthvað fyrir næsta sumar," segir hún.

Nýjast