Mér er drull

Indíana Hreinsdóttir.
Indíana Hreinsdóttir.

Ég var ekki lengi að segja já þegar ég var beðin að skrifa þennan pistil í Vikublaðið. Nú skyldi ég nú fá að leggja orð í belg og bæjarbúar fá að heyra hvað mér virkilega finnst um hitt og þetta. Eru ekki örugglega allir spenntir að vita hvað mér finnst um litakóðunarkerfi og skyldudvöl á sóttvarnarhóteli? Sænsku leiðina í uppstillingu jafnaðarmanna? Gjaldtöku á bílastæðum við eldgosið? Viðtal Opruh Winfrey við Harry prins? Samsæriskenningar tengdum Covid?

Líklega ekki. Við höfum öll okkar skoðanir á litlum sem stórum málum og í jafn fámennu samfélagi og Íslandi fáum við gjarnan öll sömu hlutina á heilann í nokkra daga. Svo tekur næsta mál við og svo það næsta. Þessar skoðanir eru gjarnan viðraðar bæði í raunheimum og á netinu. Á innsoginu. Í CAPSLOCK. Svo enginn komist hjá því að sjá/heyra það sem MÉR finnst.

Eftir að hafa starfað um árabil á fjölmiðlum ætla ég að njóta þess að þurfa ekki að koma mér inn í mál sem eru efst á baugi hverju sinni. Það er eitthvað svo frelsandi að geta bara ypt öxlum. Það þarf ekki að þýða að ég hafi ekki skoðun á málunum en í stóra samhenginu skiptir engu máli hvað mér finnst um deilur ASÍ og Play, Samherjamálið eða eitthvað annað sem við höfum rifist um síðustu misseri. Og því enginn þörf fyrir að skrifa hverja færsluna á fætur annarri á Facebook um málefnið. Lífið hefur upp á svo miklu meira að bjóða en rifrildi yfir hlutum sem við höfum takmörkuð áhrif á og hvað þá vit á.

Sumarið er handan við hornið með útilegum og kærkomnu grímuleysi. Ég ætla að reyna að njóta þess án þess að vera ýta minni óumbeðnu skoðunum á alla í kringum mig. Það er öllum nákvæmlega sama. Heimurinn er fullur af skoðunum sem enginn bað um. Framboð svo miklu meira en eftirspurn. Til að vitna í lagið sem situr í efsta sæti á vinsældarlista Rásar 2; Mér er drull. Svo hér hafiði það; skoðanalaus pistill um nákvæmlega ekki neitt.

Ég skora á Mörtu Nordal leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar í að skrifa næsta pistil.


Nýjast