Jón Már Héðinsson skólameistari setti skólann og fram kemur á vef MA, að í ávarpi sínu hafi hann nefnt að í vetur hæfist starf samkvæmt nýrri námskrá, meðal annars með hinum nýja Íslandsáfanga, þar sem samkenndar eru allmargar greinar, um helmingur náms í fyrsta bekk. Í öðru lagi nefndi skólameistari að niðurskurður setti svip sinn á allmargt í starfinu þó að þess sé freistað að láta hann ekki koma niður á námi nemenda. Hann tók fram að nemendur gengju jafnan vel um hús og eignir skólans en hvatti til að þeir gerðu það enn betur, færu vel með húsgögn og svo framvegis vegna þess hve viðhald og viðgerðir kostuðu mikið fé.
Skólameistari áréttaði að nám í MA væri full vinna og skólinn miðaðist alls ekki við að nemendur ynnu launavinnu annars staðar. Ef þeir gerðu það mætti það ekki koma niður á námi, aðalstarfinu, heldur einhverju öðru. Hann talaði um gott, reglusamt, heilbrigt og þroskandi félagslíf nemenda, sem metnaður nemenda sjálfra stæði til að vernda og viðhalda. Allt félagslíf innan skólans og á vegum hans væri þannig áfengis- og vímuefnalaust. Hins vegar væri það félagslíf sem fram færi í trássi við vilja skólans og gegn reglum hans, hið óhefðbundna partístand eldri nemenda með fyrstubekkingum þar sem haft væri áfengi um hönd og hefði oft orðið til hættu og vandræða. Hann hvatti nemendur til að standa vörð um virðingu sjálfra sín og skólans, leggja þessar óheimilu samkomur niður. Nemendur fjórða bekkjar ættu í einu og öllu að vera fyrirmyndir yngri nemenda. Þá væri nauðsynlegt að foreldrar og forráðamenn tækju þátt í því að vernda börn sín og forða þeim frá vandræðum sem af þessu gæti hlotist.
Jón Már gat þess að miðað við upphaf skólans með Gagnfræðaskólanum á Möðruvöllum 1880 væri skólinn 130 ára á þessu almanaksári og þess yrði með einhverju móti minnst nú á haustönninni.