Meirihluti íþróttaráðs styður drög að samningi við Bílaklúbbinn

Á fundi íþróttaráðs í vikunni samþykkti meirihluti ráðsins fyrir sitt leiti,  fyrirliggjandi drög að uppbyggingar- og rekstrarsamningi við Bílaklúbb Akureyrar. Bílaklúbburinn vinnur að uppsetningu á almennu akstursíþróttasvæði og ökugerði á landsvæði félagsins ofan Akureyrar. Helena Þuríður Karlsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar sat hjá við afgreiðslu málsins í íþróttaráði.  

Helena lagði jafnframt fram eftirfarandi bókun: "Ég er hlynnt uppbyggingu Bílaklúbbs Akureyrar og íþróttafélaga almennt í bænum og tel að bæjarfélagið eigi að vinna með íþróttafélögum að uppbyggingu góðrar aðstöðu fyrir allar íþróttagreinar. En á tímum efnahagsþrenginga og á meðan bæjarfélagið stendur frammi fyrir gríðarlegum niðurskurði og samdrætti þá tel ég ekki rétt að ganga frá samningi sem þessum að svo stöddu."

Kristján L. Möller þáverandi samgönguráðherra, Hermann Jón Tómasson þáverandi formaður bæjarráðs og Kristján Þ. Kristinsson formaður Bílaklúbbs Akureyrar tóku fyrstu skóflustungurnar á nýju landssvæði Bílablúbbsins í lok maí á síðasta ári. Framkvæmdir hafa hins vegar gengið hægar en vonir stóðu til í upphafi.

Nýjast