Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti leið B við sorphirðu

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær, með 7 atkvæðum gegn 4, ákvörðun framkvæmdaráðs frá 6. ágúst sl. um að breyta fyrri ákvörðun við sorphirðu úr leið A í leið B, sem er í samræmi við umsögn og bókun meirihluta umhverfisráðs 19. ágúst. Leið B gerir ráð fyrir tveimur sorptunnum við heimili og að íbúar fari með endurvinnslusorp út á hverfisvelli.  

Bæjarfulltrúar L-listann greiddu atkvæði með þessari breytingu, sem og bæjarfulltrúi Framsóknarflokks en bæjarfulltrúar Vinstri grænna, Bæjarlista, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði á móti. Bæjarfulltrúi Framsóknarflokks lagði fram eftirfarandi bókun: "Ég styð leið B sem skref í rétta átt í sorphirðu Akureyringa en legg áherslu á að áfram verði unnið að bættri flokkun og endurvinnslu með það að markmiði að innleiða leið A á kjörtímabilinu."

Bæjarfulltrúar Bæjarlista, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Í lok síðasta kjörtímabils var ákveðið að breyta sorphirðu í bænum og gera íbúum kleift að stórauka flokkun heimilissorps. Með þeirri ákvörðun hugðust bæjaryfirvöld skipa Akureyri í fremstu röð sveitarfélaga á þessu sviði. Meirihluti bæjarstjórnar hefur nú ákveðið að draga verulega úr þessum áformum og koma á skipulagi í sorphirðu sem þýðir minni þjónustu við bæjarbúa og lélegri heimtur á flokkuðum heimilisúrgangi. Við leggjumst eindregið gegn þessari ákvörðun og teljum að rétt hefði verið stuðla að sem mestri flokkun endurvinnanlegs úrgangs með endurvinnslutunnum við hvert heimili."


Á fundi bæjarstjórnar í gær kom fram tillaga frá Sigurði Guðmundssyni bæjarfulltrúa A-lista um að fresta afgreiðslu málsins og var hún felld með 6 atkvæðum gegn atkvæði Sigurðar Guðmundssonar. Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, Hermann Jón Tómasson, Ólafur Jónsson og Guðmundur Baldvin Guðmundsson sátu hjá við afgreiðslu.


Fram var lögð breytingartillaga frá bæjarfulltrúum Bæjarlista, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, svohljóðandi:
"Bæjarstjórn ítrekar fyrri samþykkt bæjaryfirvalda um að fyrirkomulag sorphirðu á Akureyri verði í samræmi við leið A í útboði bæjarins í vor, þ.e. að endurvinnslutunna verði við hvert heimili auk íláta fyrir lífrænan og óflokkaðan úrgang."
Breytingartillagan var borin upp og felld með 6 atkvæðum gegn 4 atkvæðum Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur, Hermanns Jóns Tómassonar, Ólafs Jónssonar og Sigurðar Guðmundssonar. Guðmundur Baldvin Guðmundsson sat hjá.

Nýjast