Margir Grímseyingar skuldsettir vegna kvótakaupa

"Menn reyna að bera sig mannalega en það er auðvitað ekkert hægt að skafa utan af því, staðan er skelfilega slæm," segir Gylfi Gunnarsson útgerðarmaður í Grímsey. Hann segir Grímseyinga hafa á liðnum árum reynt hvað þeir geta að bjarga sér, m.a. með því að festa kaup á auknum kvóta til eyjarinnar og það hafi kostað umtalsverða fjármuni.  

Það hafi menn gert í góðri trú og til að búa í haginn til framtíðar.  Niðurskurður á kvótanum hafi því komið mjög illa við eyjarskeggja, sem sátu eftir með miklar skuldir.  "Menn tóku lán til kvótakaupanna, en þó ekki umfram það sem við yrði ráðið með eðlilegri veiði, en niðurskurðurinn kippti svo að segja fótunum undan rekstri margra hér.  Svo bætist þetta áfall við, þannig að auðvitað er ekki bjart yfir þessu þó við reynum að bera okkur vel," segir Gylfi.  Hann segir lánin hafa hækkað verulega, um allt að 100% en á sama tími búi menn við niðurskurð á kvóta og því hljóti allir að sjá að erfitt verði að ná endum saman. "Við verðum að leita leiða til að komast út úr þessu, en eins og staðan er núna veit ég ekki hvernig menn snúa sér í þessu, það er varla á okkar valdi eins og ástatt er," segir hann. 

"Þetta er skelfileg uppákoma, en eins og er getum við lítið gert, það verður að bíða þetta moldviðri af sér og sjá hvað setur.  Vissulega vonum við öll hér að við þurfum ekki að horfa á ævistarfið verða að engu, en verði það svo þá getum við ekkert annað gert en að taka því," segir Gylfi en bætir við að uppgjöf sé ekki fyrsti kostur Grímseyinga, þeir muni berjast fyrir lífsviðurværi sínu sem fyrr.

Nýjast