Mánaberg til hafnar með 165 milljóna króna aflaverðmæti

Mánaberg ÓF 42, frystitogari Ramma, er að koma til hafnar eftir úthafskarfaveiði á Reykjaneshrygg. Veiðiferðin, sem hófst 13. maí, gekk vel og var heildaraflinn um 650 tonn og aflaverðmætið um 165 milljónir króna. Skipið kom inn til millilöndunar 27. maí.  

Að sögn Sigþórs Kjartanssonar skipstjóra, á heimasíðu Ramma, var veiðin fyrri hluta túrsins rétt utan við 200 mílna landhelgina en seinni hlutann var veiðin nánast á landhelgislínunni og rétt innan við hana. Karfinn sem skipið fékk var góður og blíðuveður var fyrri part veiðiferðar en kaldaskítur undir lokin. Eftir sjómannadag er stefnan svo aftur sett á Reykjaneshrygginn.

Nýjast