22. október, 2010 - 12:19
Fréttir
Rakel Hönnudóttir, fyrirliði kvennaliðs Þórs/KA í knattspyrnu, er kominn til landsins eftir stutta dvöl út í
Svíþjóð þar sem hún æfði með sænska úrvalsdeildarfélaginu Jitex BK. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag
að félagið vilji semja við Rakel og sjálf segist hún spennt fyrir verkefninu og mun vera að íhuga sína framtíð.
Það er ljóst að það yrði mikil blóðtaka fyrir lið Þórs/KA að missa Rakel í burtu, en hún hefur
verið einn besti leikmaður liðsins undanfarin ár. Fleiri leikmenn gætu einnig verið á förum frá félaginu.
Samkvæmt heimildum Vikudags ganga samningaviðræður við Dönku Podovac og Vesnu Smiljkovic afar hægt og svo gæti farið að þær myndu
yfirgefa félagið, en báðar eru þær lykilmenn í liðinu. Þór/KA tryggði sér nýverið sæti í
Meistaradeild Evrópu og til að ná árangri á þeim vettvangi er ljóst að liðið má illa við að missa sterka
leikmenn
Nói Björnsson, formaður leikmannaráðs kvenna, segir félagið ætli sér að berjast fyrir
leikmönnunum.
„Við sleppum t.d. Rakel ekki baráttulaust og vonandi mun hún sjá ljósið hjá okkur,“ segir
Nói.