Það er hægt að vera viss í sinni sök. Eiga sér mörg baráttumál. Berjast fyrir þeim allt til enda. Það er líka hægt að vera óviss. Sjá fleiri hliðar en eina. Að þótt það verði að komast að ákveðinni niðurstöðu, þá þurfi hún ekki endilega að vera nákvæmlega sú sem maður var búinn að ákveða í upphafi að væri sú besta. Flestir eru vissir um sumt, en óvissari með annað. Óvissa er alls ekki löstur, ef vel er með hana farið.
Ég er í framboði til stjórnlagaþings. Í samskiptum mínum við aðra frambjóðendur hefur mér sýnst þeir flestir hafa þau mál sem skipta þá mestu, en um leið gert sér grein fyrir að ritun nýrrar stjórnarskrár verður samvinnuverkefni þar sem fólk ræðir saman og kemst að sameiginlegri niðurstöðu. Mér líst nokkuð vel á þetta.
Það sem mér finnst mestu máli skipta er að breyta valdahlutföllunum í stjórn landsins. Það þarf að leita allra leiða til að draga úr „ráðherraræðinu" svokallaða, og styrkja á móti völd alþingis og sjálfstæði dómstólanna. Og þær eru margar sem hafa komið fram nú þegar: Að ráðherrar sitji ekki á alþingi. Að takmarka kjörgengi alþingismanna og ráðherra til embættis forseta Íslands, auk dómara. Að færa frumkvæði að stjórnarfrumvörpum og reglugerðum frá ráðuneytum til þingnefnda. Takmarka völd Dómsmálaráðherra til þess að skipa dómara, svo nokkuð sé nefnt.
Ég er hlynntur jöfnun atkvæðavægis, en ég óttast að það að gera landið að einu kjördæmi ýti undir miðstýringu, ráðherraræði og jafnvel enn óbilgjarnari flokkslínur. Vænlegra gæti verið að fækka kjördæmum samfara jöfnun atkvæða, það hefur sína kosti gegn flokksræðinu að þingmenn geti sett skyldur sínar við kjósendur í héraði ofar hagsmunum þeirra flokksfélaga sinna sem leggja línurnar.
Svo finnst mér fleira um mörg mál, og um þau má fræðast á framboðssíðum mínum (bæði bloggi og fasbókarsíðu). En þetta finnst mér mestu máli skipta.
Við þurfum að semja okkur nýja stjórnarskrá. Við, ég og þú. Stjórnarskrárfrumvarpið mun þurfa að fara í gegnum hendur alþingis. Og þar skiptir miklu máli hversu mikinn stuðning stjórnlagaþingið hefur frá þjóðinni. Svo umfram allt, farðu og nýttu atkvæði þitt á laugardaginn kemur. Það er sama hverja þú kýst, svo lengi sem þú ferð og kýst þá sem þér líst best á. Það er ekki flóknara en þetta:
Að kjósa til stjórnlagaþings er þónokkuð létt.
Þú þarft bara lista af snillingum, þjörkum og vinum.
Og síðan er gott að sjá til að þetta sé rétt:
Þú setur þann besta efst, og raðar svo hinum.
Höfundur er í framboði til stjórnlagaþings nr. 3502.