Kornbændur hófu sáningu um mánaðamótin apríl-maí sem er hefðbundinn tími að sögn Ingvars Björnssonar ráðunautar hjá Búgarði, en víðast er að verða klakalaus jörð. Hann segir að engar fregnir hafi borist af kali á svæðinu og því megi gera ráð fyrir að tún komi almennt nokkuð vel undan vetri. „Þó má gera ráð fyrir að síðasta kuldakast sem varð í kjölfar nokkurra hlýinda geti haft áhrif á gróður að einhverju leyti og seinkað vorkomu," segir Ingvar. Almennt segir hann líta vel út með sprettu og uppskeruhorfur en miklu skipti að ekki komi hret í maí.
Ólafur G. Vagnsson ráðunautur segir að sauðburður sé víða að fara í gang um þessar mundir. Hjá sumum bændum sé hann jafnvel hálfnaður, m.a. þeim sem slátra á sumarmarkað, en hjá öðrum hefjist burður ekki að neinu marki fyrr en um miðjan maí.