Lítill áhugi fyrir sjómanna- deginum á Akureyri

Lítið hefur verið um að vera undanfarin ár í kringum hátíðahöld sjómannadagsins á Akureyri og er fjárskorti þar einkum um að kenna. Formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, Konráð Alfreðsson, segir að vissulega hafi menn hug á að lífga upp á daginn en til þess þurfi fjármagn. Af er sem áður var þegar efnt var til tveggja daga hátíðarhalda í útgerðarbænum Akureyri sem jafnan var vel sótt. "Við stefnum að því að bjóða upp á einhver hátíðahöld, en þau verða eflaust ekki stór í sniðum," segir Konráð. Samvinna verður við Vini Húna um hátíðahöldin að þessu sinni, sunnudaginn 1. júní nk. Áður fyrr var dagskráin greidd með því fé sem fékkst af miðasölu á sjómannadansleik í Íþróttahöllinni en hann hefur ekki verið haldin undanfarin ár. Ástæðu þess segir Konráð þá að stóru útgerðarfélögin hættu að bjóða sínum sjómönnum á dansleikinn og við það datt botninn úr, fólk mætti ekki. "Þar með höfðum við ekki neina peninga til ráðstöfunar til að greiða fyrir hátíðarhöld dagsins," segir Konráð. Ýmsir aðilar hafi áhuga á að styrkja hátíðarhöld af öðru tagi í bænum, en sýni sjómannadeginum engan áhuga.

Þá bendir hann á að stóru útgerðarfyrirtækin tvö, Brim og Samherji, styðji ekki lengur við sjómannadaginn á Akureyri, Samherji styrki Fiskidaginn mikla á Dalvík og Brim leggi til fjármagn til Hátíðar hafsins í Reykjavík. "Að mínu mati hafa þessi fyrirtæki snúið baki við sínum sjómönnum með þessu og mér þykir það eiginlega undrun sæta," segir Konráð.

Þá eru blikur á lofti varðandi útgáfu blaðsins, Ölduróts sem komið hefur út mörg undangengi ár með viðtölum við sjómann og sjómannatengt efni. "Það er enn óvist hvort af útgáfunni verður," segir Konráð.

Nýjast