„Leikurinn fer klárlega í reynslubankann”

„Þetta var ekki góður leikur en ég er þó sáttur með mína frammistöðu,” segir Oddur Gretarsson handboltakappi, sem var í eldlínunni með íslenska handboltalandsliðinu gegn Austurríki um sl. helgi.

Leikurinn var liður í undankeppni Evrópumóts karla en Ísland tapaði sem kunnugt er leiknum með fimm mörkum, 28:23, í Wiener Neustadt. Oddur kom óvænt inn í hópinn í stað Loga Geirssonar sem er meiddur og ekki hægt að segja annað en að hann hafi nýtt tækifærið vel. Oddur kom inn á snemma í seinni hálfleik og skoraði m.a. tvö mörk og fiskaði eitt víti á þeim tíma sem hann var inn á.

„Ég hefði mátt skora úr þriðja skotinu líka en þessi leikur fer klárlega í reynslubankann hjá mér. Ég hefði þó viljað vinna leikinn og spila einnig vel, það hefði verið það besta,” segir Oddur, en lengra viðtal við hann má sjá í Vikudegi í dag.

Nýjast