Launahækkanir kennara kosta Akureyrarbæ 250 milljónir

Ráðhúsið á Akureyri
Ráðhúsið á Akureyri

Eins og fram hefur komið í fréttum náðist samkomulag á milli Félags grunnskólakennara og samninganefndar sveitarfélaga um nýjan kjarasamning kennara fyrir skemmstu.

Samkvæmt samningnum er um að ræða hækkun launa um 7,3 prósent sem tók gildi 1. desember 2016. Enn fremur eiga laun að hækka um 3,5 prósent 1. mars 2017. Auk þess felur samningurinn í sér að þann 1. janúar 2017 skal greiða hverjum starfsmanni sem var í fullu starfi í desember 2016 sérstaka eingreiðslu að upphæð kr. 204 þúsund.

Vikudagur spurðist fyrir um hversu mikla útgjaldaaukningu þessi hækkun hefði í för með sér fyrir Akureyrarbæ. Í skriflegu svari til blaðsins sagði Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs að Akureyrarbær væri vel í stakk búinn til að mæta þessari útgjaldaaukningu. „Í þeirri fjárhagsáætlun sem við erum að ganga frá þessa dagana er gert ráð fyrir launapotti vegna ófrágenginna samninga upp á 250 milljónir króna þannig að út frá því erum við nokkuð vel í stakk búin til að takast á við þessa hækkun.  Við erum hins vegar með halla af rekstri A-hluta sem er áhyggjuefni,“ segir hann.

Samkvæmt útreikningum á áhrifum kjarasamningsins þá má gera ráð fyrir ríflega 250 milljóna króna hækkun útgjalda á árinu 2017. Þá er horft til prósentu hækkana samningsins og eingreiðslunnar í upphafi árs 2017.

Í umræðum um rekstur grunnskólanna hafa heyrst þær raddir meðal kennara að sveitarfélögin ættu hreinlega að skila rekstrinum til aftur til ríkisins. Aðspurður segir Guðmundur Baldvin að sú umræða hafi ekki verið tekin hjá Akureyrarbæ. „Við höfum hins vegar talið mikilvægt að skoða tekjustofna sveitarfélaga sem og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga,“ segir hann. 


Athugasemdir

Nýjast